Sony hefur loks staðfest bæði verð og útgáfudag fyrir PlayStation VR sýndarveruleikahjálm PlayStation 4. Hann er væntanlegur í október næstkomandi og kemur til með að kosta 399 dollara í Bandaríkjunnum, 399 evrur í Evrópu, 349 pund í Bretlandi og 44.980 jen í Japan.

Þetta kom fram rétt í þessu á Game Developers Conference ráðstefnunni, en hún er haldin San Francisco á þessu ári.


Leikjaframleiðandinn EA var einnig með tilkynningu samhliða þessu, sem er sérstök útgáfa af Star Wars Battlefront einvörðungu fyrir PSVR, en að auki má búast við rúmlega 50 leikjum fyrir tækið milli október og lok ársins.

PlayStation VR

Allt sem fylgir hverju eintaki af PlayStation VR.

PlayStation VR var upphaflega afhjúpaður sem Project Morpheus á sömu ráðstefnu fyrir tveimur árum síðan.

Hjálmurinn fær verðuga keppinauta á borð við Oculus Rift, sem kemur þann 28. mars næstkomandi á 600 dollara og HTC Vive, sem kemur í byrjun apríl á 800 dollara.